
Frásögn DV af vitnisburði fyrirsætunnar Hildar Lífar í Héraðsdómi Reykjavíkur í svokölluðu Black Pistons-máli vakti mikla athygli í gær. Mikið hefur verið fjallað um réttarhöldin enda bera þau vott um sívaxandi hörku og nánast sjúklegt ofbeldi í undirheimum Reykjavíkur en tveimur mönnum er gefið að sök að hafa beitt þriðja aðila óhugnanlegu ofbeldi. Hildi Líf bregður hins vegar einnig fyrir í kvikmyndinni Svartur á leik sem Þórir Snær framleiðir og byggir á samnefndri bók Stefáns Mána um undirheima Reykjavíkur við aldamótin.
Þórir segir þetta hrikalega tilviljun en svona geti raunveruleikinn og skáldskapurinn stundum skarast. Þórir hefur næg verkefni á sinni könnu því á skipulaginu er kvikmyndin Only God Forgives sem Cannes-verðlaunahafinn Nicholas Winding Refn leikstýrir. „Við höfum gert tvær myndir saman, Bronson og Valhalla Rising, og Nicholas er líka einn af framleiðendum Svartur á leik,“ segir Þórir en meðal annarra framleiðenda eru breska stórstjarnan Kristin Scott Thomas og Hollywood-sjarmörinn Ryan Gosling. Þau tvö munu jafnframt leika aðalhlutverkin í myndinni sem Þórir kýs að lýsa sem „ofbeldislist“.-fgg