Handbolti

Björgvin Páll í beinni í dag: Allt er miklu stærra en í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll átti frábær ár með Kadetten í Sviss.
Björgvin Páll átti frábær ár með Kadetten í Sviss. Mynd/Daníel
Björgvin Páll Gústavsson er nýjasti Íslendingurinn í þýsku deildinni sem hefst í dag, en hann mun spila sinn fyrsta leik með Magdeburg á heimavelli á móti Göppingen í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.00 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

„Þetta er allt miklu stærra en í Sviss enda er þetta stærsta og besta deildin í heiminum. Takmarkið var að komast hingað, það tókst og nú er bara að standa sig," sagði Björgvin Páll í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Ég kann rosalega við mig og þetta fer vel af stað. Undirbúningstímabilið er búið og maður er spenntur að fara að byrja á alvörunni. Tilhlökkunin er alltaf til staðar og það er ekkert stress komið ennþá. Ég er yfirleitt laus við það. Það er mikil tilhlökkun að fá að takast á við fyrsta leikinn sinn í Bundesligunni," segir Björgvin Páll.

„Það er gaman að fá að byrja á svona hörkuleik. Göppingen er lið sem við þurfum að vinna ef við ætlum að gera eitthvað í deildinni. Það er svipað að styrkleika og við. Þetta er mjög mikilvægur leikur," sagði Björgvin.

„Liðið náði góðum árangri í fyrra og markmiðið er að halda áfram og byggja ofan á það sem menn hafa verið að gera. Þetta er sterk deild en við ætlum að reyna að vera í kringum sjötta sætið," sagði Björgvin.

„Félagið var í smá vandræðum peningalega séð fyrir nokkrum árum en menn eru búnir að vinna sig upp úr því. Það er frábært að fá Evrópukeppnina ofan á deildina. Það er mikil stemmning í borginni fyrir Evrópukeppninni og það væri gaman að komast sem lengst þar," sagði Björgvin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×