Handbolti

Hættur öllu sukki í mataræðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson sést hér í baráttunni í leik með Rhein-Neckar Löwen á dögunum.
Róbert Gunnarsson sést hér í baráttunni í leik með Rhein-Neckar Löwen á dögunum. Fréttablaðið/Jürgen Pfliegensdörfer
Ísland á flotta fulltrúa í stórleik dagsins í þýska handboltanum þegar lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar, Rhein-Neckar Löwen, taka á móti strákunum hans Alfreðs Gíslasonar í Kiel. Róbert Gunnarsson og Aron Pálmarsson munu takast á inni á vellinum en Róbert hefur mætt eins og nýr maður til leiks á þessu tímabili eftir að hafa tekið mataræðið sitt algjörlega í gegn.

„Þetta er einn af þessum stóru leikjum og það verður rosa gaman að spila hann. Vonandi hittum við á góðan dag en Kiel er í svaka formi þessa dagana og er að spila hrikalega vel," segir Róbert Gunnarsson.

Rhein-Neckar Löwen vann þrjá fyrstu leiki sína í deildinni en tapaði síðan óvænt fyrir Íslendingaliðinu Hannover-Burgdorf í síðustu umferð.

„Við getum verið ógeðslega góðir og svo getum við líka verið hrikalega lélegir. Við erum að reyna að stilla það af en það gekk ekki alveg nógu vel á móti Hannover. Á einni viku áttum við tvo mjög góða leiki og einn hræðilegan mitt á milli. Það er eitthvað sem við verðum að laga en þetta lítur allt í lagi út," segir Róbert.

Róbert hefur byrjað tímabilið vel með Löwen-liðinu en Guðmundur treystir nú algjörlega á hann á línunni hjá liðinu eftir að Norðmaðurinn Bjarte Myrhol er frá eftir að hafa greinst með krabbamein í sumar.

„Ég spila alla leikina núna því Bjarte er ekki með. Eins og staðan er í dag þá er ég bara einn um stöðuna. Það mætti alveg ganga betur en við skulum ekki nota orðtakið að spýta í lófana því þá gríp ég ekkert," sagði Róbert í léttum tón.

Hann var að sjálfsögðu ekki sáttur við síðasta vetur þar sem hann var í algjöru aukahlutverki hjá Löwen-liðinu.

„Ég þarf að halda áfram að berjast og hafa gaman af því að spila. Það voru mikil viðbrigði í fyrra þegar ég spilaði mun minna en ég var vanur. Ég vissi alveg að ég myndi spila minna en svo stóð Bjarte Myrhol sig alveg frábærlega vel þannig að ég spilaði ennþá minna. Það er ekkert við því að segja því svona er bara sportið og atvinnumannalífið. Þetta er fljótt að breytast og maður þarf bara að vera á tánum þegar maður fær að spila," segir Róbert.

Róbert er nú eini Íslendingurinn í liði Rhein-Neckar Löwen en Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson fóru til danska liðsins AG Kaupmannahöfn í sumar.

„Ég hef prófað þetta áður. Ég var í Gummersbach þegar við vorum fjórir Íslendingarnir og svo var ég orðinn einn eftir. Ég þekki þetta alveg, auðvitað er gaman að hafa Íslendinga með sér en þetta er óskavinna og maður kynnist þá bara hinum liðsfélögunum betur," segir Róbert.

Þeir sem hafa séð til Róberts á haustmánuðunum hafa tekið eftir að hann er búinn að skera sig niður og virkar í frábæru formi. Róbert segist ekki hafa farið í neitt átak en að hann hafi tekið sig taki í mataræðinu.

„Ég fór loksins að opna augun fyrir heilbrigðara líferni og þetta er ekkert flóknara en það. Ég er í engum kúr eða svoleiðis en er bara að lifa aðeins heilbrigðara og hættur þessu sukki. Það er hræðilegt að segja frá því að maður fatti þetta fyrst þegar maður er kominn yfir þrítugt," segir Róbert sem tók líka vel á því í sumar.

„Ég æfði hrikalega vel, bæði í sumar sem og á undirbúningstímabilinu. Ég hef alltaf æft vel en tók núna allan pakkann, fór að hugsa um mataræðið og fór líka að æfa aukalega. Undirbúningstímabilið er búið og nú er bara komið að því að standa sig."

Róbert hefur skorað 3 mörk að meðaltali í fyrstu fjórum leikjunum.

„Ég hef átt mjög góða leiki það sem af er í vetur en ég hef átt líka lélega leiki. Þetta snýst bara um að ná stöðugleika og það þýðir ekkert að dvelja við fortíðina. Maður verður að halda áfram, taka bara næsta dag og halda áfram að reyna að bæta sig. Ég þarf að sanna aðallega fyrir sjálfum mér að ég geti ennþá spilað eins og ég hef gert áður," segir Róbert.

Róbert hefur spilað fyrir þá Guðmund Guðmundsson og Alfreð Gíslason bæði í félagsliði og landsliði og þekkir því vel til þjálfaranna tveggja sem mætast í dag.

„Þetta er svolítið sérstakur leikur því þarna mætast tveir íslenskir þjálfarar og við erum síðan tveir íslenskir leikmenn líka. Þetta er svolítill þjálfaraslagur enda verður þetta taktískt og eins konar skák fyrir þjálfarana. Ég þekki þessa þjálfara vel og þeir eru að vissu leyti mjög svipaðir. Þeir eru örugglega báðir að hugsa hvað hinn ætlar að gera á morgun. Ætli þeir séu ekki búnir að ofhugsa þetta báðir," segir Róbert.

Leikur Rhein-Neckar Löwen og Kiel verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 15.30.

„Ef við náum að spila nokkuð stresslausir og náum að spila okkar bolta þá hef ég engar áhyggjur. Það þurfa allir hjá okkur að eiga góðan dag. Ég reyni kannski að standa mig extra vel á morgun fyrst þetta er sýnt heima," segir Róbert að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×