„Ég fullyrði að það verður enginn samur eftir tónleika með þessum snillingi,“ segir Björn Thoroddsen gítarleikari.
Björn hefur bókað gítarsnillinginn Tommy Emmanuel til tónleikahalds á Íslandi. Tónleikarnir fara fram í Háskólabíói hinn 9. janúar á næsta ári. „Það er mikill heiður að geta kynnt þennan besta gítarleikara í heimi fyrir Íslendingum. Hér er draumur að verða að veruleika,“ segir Björn og er mikið niðri fyrir. „Hann spilar alla stíla; popp, djass, blús og klassík. Hann er einfaldlega frábær í öllu.“
Tommy Emmanuel er af mörgum talinn einn færasti gítarleikari heims. Gítarinn hreinlega leikur í höndum hans og spilar hann samtímis laglínu, rytma, bassa og sóló á gítarinn svo að það er engu líkara en að fleiri en einn hljóðfæraleikari séu á ferðinni. Tommy kallar tækni sína „Finger style“ og hefur hann hlotið margs konar viðurkenningar fyrir spilamennsku sína.
Miðasala á tónleikana fer fram á Miði.is.

