Handritshöfundur Training Day, David Ayer, hefur verið ráðinn til að skrifa handritið að nýrri útgáfu af Scarface fyrir Universal-kvikmyndaverið. Verkefnið hefur verið lengi í bígerð en nú virðist loks vera kominn hreyfing á málið.
Sennilega vita ekki margir af því en fyrsta Scarface-myndin var gerð árið 1932 og skartaði Paul Muni í hlutverki ítalsks innflytjenda sem leggur undir sig undirheima Chicago. Hún var þá byggð á skáldsögu Armitage Trail og Oliver Stone notfærði sér hana þegar hann skrifaði handritið fyrir Brian De Palma-myndina árið 1983 þegar Al Pacino gerði ógleymanlegan kúbverska innflytjandann Tony Montana sem sölsaði undir sig kókaínmarkaðinn í Miami.
Í stuttu máli sagt er Scarface-plottið ákaflega einfalt. Innflytjandi kemur til Ameríku og leggur undir sig undirheimana. Samkvæmt upplýsingum vefsíðunnar Deadline.com er ráðgert að nýja Scarface-myndin gerist í nútímanum og að ekki verði um raunverulega endurgerð að ræða, hvorki á myndinni frá árinu 1932 né 1983. - fgg
Ný Scarface í bígerð
