Gagnrýni

Annað sjónarhorn

Trausti Júlíusson skrifar
Tónlist. Aðför að lögum. Megas og strengir

Aðför að lögum hefur að geyma tólf Megasarlög í nýjum útsetningum eftir Þórð Magnússon, son Megasar. Eins og nafn flytjanda á plötuumslaginu gefur til kynna eru þetta útsetningar fyrir strengjasveit sem er skipuð tveimur fiðluleikurum, víóluleikara, sellóleikara og kontrabassaleikara. Allt topp hljóðfæraleikarar.

Þegar þessi dagskrá var frumflutt í Háskólabíói á Listahátíð í Reykjavík í maí 2010 varð ég fyrir smá vonbrigðum. Útsetningarnar gripu mig ekki sérstaklega við fyrstu hlustun og mér fannst Megas á köflum hikandi og óöruggur í söngnum. Mig grunaði samt að þetta væri efni sem gæti komið vel út á plötu. Og það gekk eftir.

Lögin á Aðför eru bæði af gömlum og nýrri Megasarplötum. Útsetningarnar eru mjög ólíkar frumútgáfunum, sem er auðvitað mikill kostur ef menn eru á annað borð að gefa gömul lög út á nýjan leik. Með strengjasveit má bæði framkalla drunga og dramatík og léttleika, og fegurð og útsetningar Þórðar gera þetta allt, þó að það fari kannski minnst fyrir léttleikanum. Það er helst í Tveimur stjörnum og Jólanáttburði.

Útsetningarnar eru margar mjög flottar. Í uppáhaldi hjá mér eru Silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig, Nóttin hefur níðst á mér, Heill, Tvær stjörnur og Gamli sorrí

Gráni, sem er gjörbreytt.

Á heildina litið er þetta flott plata með allt öðruvísi útsetningum af gömlum lögum. Þær koma ekki í staðinn fyrir upprunalegu útsetningarnar og spurningin er ekki hvort þær eru betri eða verri. Þetta er einfaldlega ný nálgun, annað sjónarhorn.

Niðurstaða: Gömul Megasarlög í gjörbreyttum útgáfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.