Matur

Með matreiðsluþátt á BBC

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Völundur Snær völundarson.
Völundur Snær völundarson.
„Það er frábært að BBC sé að sýna þættina og þátturinn hefur fengið mikla dreifingu fyrir vikið," segir sjónvarpskokkurinn Völundur Snær Völundarson en sjónvarpsstöðin BBC Lifestyle hóf nýlega að sýna matreiðsluþætti hans, Delicious Iceland.

Völundur, eða Völli eins og hann er kallaður, tók upp þáttaröðina árið 2010, en þar ferðast hann um Ísland, eldar og kynnir um leið íslenska menningu og uppruna hráefnisins sem notað er í matreiðsluna. Völli hefur orðið var við mikil og góð viðbrögð að utan við þáttunum. "Ég hef fengið mjög góð viðbrögð frá útlendingum og er á því að þetta sé hin besta landkynning. Ég hef ófáum sinnum verið stöðvaður af útlendingum niðri í bæ sem þekkja mig úr sjónvarpinu," segir sjónvarpskokkurinn, en þáttaröðin, sem inniheldur sex þætti, hefur þegar verið sýnd í um 30 löndum úti um allan heim.

Hjá BBC Lifestyle er Völli kominn í hóp með frægustu sjónvarpskokkum heims á borð við Jamie Oliver, Gordon Ramsay og Nigellu sem einnig deila matarþekkingu sinni með áhorfendum stöðvarinnar.

Völli einbeitir sér að framleiðslu matreiðsluþátta þessa stundina og næsta skref hjá honum er að fara með stiklur að nokkrum þáttum á matarráðstefnu í Kína í sumar. "Það eru allir að reyna að komast inn á Asíumarkað enda mjög stór markaður. Takmarkið er að fá þá til að borga framleiðslukostnað af þáttunum. Þess vegna er ég tilbúinn með fjölbreytta flóru af stiklum og ætla að kanna hvernig markaðurinn þarna virkar," segir Völli sem ætlar að sjá hvort Asíumarkaðurinn sé ennþá hrifinn af ferða- og matreiðsluþáttum, þáttum sem eru teknir upp í stúdíói eða sérstökum grillþáttum. "Ég er einnig með seríu með íslenskt sjávarfang í forgrunni á teikniborðinu sem gaman væri að gera á næstunni."

Völli hefur verið búsettur á Bahama undanfarin ár ásamt konu sinni, fjölmiðlakonunni og rithöfundinum Þóru Sigurðardóttur, og börnum en segist nú vera kominn með annan fótinn heim. "Fjölskyldan, vinirnir og íslenska skólakerfið heillaði og þess vegna eru börnin og konan komin heim. Ég vil ekki segja að ég sé fluttur heim því ég fer reglulega út til Bahama en annar fóturinn er kominn." Fyrir áhugasama þá er Delicious Iceland á dagskrá BBC Lifestyle í kvöld.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.