Stórleikarinn Ben Stiller gerir víðreist um Austurland þessa dagana vegna undirbúnings fyrir tökur á kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty.
Stiller var staddur á Seyðisfirði í gær, ef marka má innlegg hans á myndavefinn Instagram. Á myndinni sést Seyðisfjarðarkirkja í ljósaskiptunum, horft frá Norðurgötu. Fyrirsögnin hjá Stiller er einföld "Seydisfojodur!".
Fylgjendur Stillers kunnu vel að meta myndina. Einn þeirra sem leggur orð í belg segir myndina bæði fallega og áleitna. Honum finnst hún minna sig á Sigur Rós og innir Stiller eftir því hvort hann kunni að meta stórsveitina. Stiller hafði ekki svarað þegar blaðið fór í prentun.
fb, þj

