Steven Gerrard, Luis Suarez, Martin Skrtel og Glen Johnson ferðuðust ekki með liði Liverpool til Skotlands. Liverpool mætir Hearts í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar í Edinborg annað kvöld.
Liverpool tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag og greinilegt að Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, vill hafa sína lykilmenn klára í þann leik.
„Með þann frábæra hóp og leikmenn sem við höfum yfir að ráða verðum við að skipta leikjunum á milli leikmanna enda þarf liðið að spila á laugardegi, svo fimmtudegi og aftur á sunnudeg. Þetta gefur fleiri leikmönnum tækifæri á að standa sig," segir Colin Pascoe aðstoðarstjóri Liverpool.
Liverpool tapaði 3-0 í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni gegn West Brom um síðustu helgi. Þá fékk Daniel Agger að líta rauða spjaldið og verður í banni gegn City um helgina.
Gerrard og Suarez hvíldir gegn Hearts
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
