Gagnrýni

Greindarlegt grín

Elísabet Brekkan skrifar
Hundur í óskilum „Sýningin var ein gegndarlaus þindaræfing, slík voru hlátrasköllin,” segir gagnrýnandi Fréttablaðsins.
Hundur í óskilum „Sýningin var ein gegndarlaus þindaræfing, slík voru hlátrasköllin,” segir gagnrýnandi Fréttablaðsins.
Leikhús. Saga þjóðar eftir Eirík G. Stephensen og Hjörleif Hjartarson. Sýnt á Litla sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri: Benedikt Erlingsson, leikmynd Dýri Bjarnar Hreiðarsson, Benedikt Erlingsson, búningar Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, tónlist: Hundur í óskilum, lýsing Gunnar Sigurbjörnsson.



Í Borgarleikhúsinu er um þessar mundir verið að sýna sjóntónleik þar sem tvíeykið Hundur í óskilum rifjar upp Íslandssöguna og þeytist gegnum sköpunarsögu alheims auk þess að yrkja ný hetjukvæði um Jón karlinn Sigurðsson. Benedikt Erlingsson leikstýrir þeim félögum og er jafnframt dramatúrgur sýningarinnar, handbragð hans merkjanlegt í hraða frásagnar og fádæma sniðugum lausnum.

Þeir Naddoður, Garðar Svavarsson og fleiri góðir menn fá sitt pláss og tengsl við atburði dagsins er víða smellt inn í eins og því að Hrafna-Flóki, hinn raunverulegi fyrsti Íslendingur, varð gjaldþrota eftir aðeins einn vetur í landinu.

Bergþórshvoll brennur undir sniðugu lagi um Njálu og til að undirstrika orð sín og æði grípa leikararnir tveir til hvaða hljóðfæra sem er og ýmis þeirra með öllu ókunn fyrr. Á sviðinu er hljóðfæratré sem gott er að ná sér í instrument á. Þegar komið er að því að fjalla um Gunnar á Hlíðarenda og öll hans hjú og tengsl, munar Hjörleif Hjartarson ekkert um að fara með Gunnarshólma allan og Eiríkur kom nokkrum sinnum inn með flottum undirleik hins mikla bassa.

Nálægari framapotarar en þeir sem vígbjuggust hér á víkingatímum fengu einnig sitt pláss og má segja að sýningin hafi verið ein gegndarlaus þindaræfing, slík voru hlátrarsköllin. Það er óvenjulegt að upplifa svona greindarlegt grín, sem þar að auki lyfti fram hlut kvenna og féll aldrei í þann algenga pytt að ná sér í hlátursgusur út á kvenfyrirlitningu. Þessa sýningu ætti að gera að skyldusýningu og bjóða svo upp á langar umræður á eftir.

Niðurstaða: Íslandssagan í fylgd Hunds í óskilum er sprellfjörug sýning sem hentar öllum aldursflokkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.