„Þetta er rosalega spennandi, enda taka sex fyrrverandi heimsmeistarar þátt á þessu keppnistímabili," segir Halldóra Matthíasdóttir en hún, ásamt Rúnari Jónssyni, tekur við sem stjórnandi Formúlunnar á Stöð 2 Sport frá og með vorinu. Þau munu taka við af Gunnlaugi Rögnvaldssyni sem hefur séð um Formúluna hjá 365 síðan árið 2008.
Halldóra verður Rúnari til halds og trausts í lýsingum á keppnum og í tímatökum. Hún er þó ekki alveg blaut á bak við eyrun þegar kemur að dagskrárgerð í Formúlunni. „Ég hef áður verið í tveimur þáttum sem kallast Við rásmarkið og Við endamarkið og hef verið að aðstoða við klippingar og tölfræði síðustu tvö ár," segir hún.
Halldóra hefur sjálf aldrei keppt í akstursíþróttum en hún er áhugamanneskja um mótorhjól. Hún segir áhuga sinn á Formúlunni hafi kviknað sumarið 1998. „Þá var ég í Hamburg að fylgjast með keppni, en þar voru Schumacher og Häkkinen að berjast um heimsmeistaratitilinn."
Halldóra hefur í nægu að snúast og þykir leitt að missa af keppni. „Ég er að fara að taka þátt í Parísarmaraþoni þann 15. apríl og þá missi ég af keppni í Sjanghæ í Kína."
Halldóra er mikil íþróttamanneskja og er nú að undirbúa sig undir þátttöku í hálfum Járnkarli sem fer fram þann 22. júlí. „Ég hef aldrei tekið þátt áður þannig að ég er á fullu að synda, hjóla og hlaupa til að undirbúa mig. Ég æfi með Þríþrautarfélagi Ægis í sundi og hleyp með hlaupahópnum Bíddu aðeins," segir Halldóra.
Formúlan hefst að nýju í mars og allar keppnir ársins verða sýndar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í opinni dagskrá.
Járnkonan Halldóra lýsir Formúlu eitt
