„Hjá Samherja hefur í einu og öllu verið farið að lögum hvort sem það varðar gjaldeyrisviðskipti eða önnur málefni,“ segir í yfirlýsingu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, vegna húsleitar hjá fyrirtækinu á vegum Seðlabankans.
Þorsteinn segir aðgerðir Seðlabankans tilefnislausar og hljóta að vera byggðar á röngum upplýsingum eða öðrum ástæðum sem Samherja sé ekki kunnugt um hverjar eru.
Gjaldeyrisdeild Seðlabankas grunar Samherja um brot á gjaldeyrislögum en Þorsteinn segist engar skýringar hafa fengið.
„Samherji hefur lagt sig fram um að uppfylla allar kröfur Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti,“ segir forstjórinn sem kveður bankann virðast eiga í erfiðleikum með að átta sig á alþjóðlegri starfsemi Samherja. „Kann það að hluta til að skýra þessar sérkennilegu aðgerðir nú.“
Þá segir Þorsteinn „harkalegar og ómálefnalegar aðgerðir“ Seðlabankans „hljóta að vera einsdæmi“. Hann skorar á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning fyrir húsleitinni svo Samherji geti lagt sitt af mörkum til að upplýsa Seðlabankann um það sem hann vilji fá skýringar á og um leið freistað þess að takmarka tjón fyrirtækisins af aðgerðinni.

