Framleiðslufyrirtækið Lionsgate hefur staðfest að kvikmyndin sem byggð er á þriðju og síðustu bókinni um Hungurleikana verður skipt í tvo hluta.
Fyrsta myndin, sem byggð var á bókum Suzanne Collins, sló í gegn og bíða margir spenntir eftir framhaldinu en næsta mynd, Catching Fire, kemur út í nóvember 2013. Nú hefur Lionsgate staðfest að síðasta bókin, Mockingjay, verður að tveimur kvikmyndum og mun fyrri hlutinn verða frumsýndur í nóvember árið 2014. Síðari myndin verður svo sýnd ári seinna, eða í nóvember 2015.
Þríleikurinn gerist í óskilgreindri framtíð og segir frá hinni ungu Katniss Everdeen sem tekur þátt í raunveruleikaþætti sem nefnist Hungurleikarnir í stað yngri systur sinnar. Hungurleikarnir eru þó ekkert gamanmál heldur barátta upp á líf og dauða og aðeins einn stendur uppi að leikslokum.
