Skotíþróttamaðurinn Ásgeir Sigurgeirsson úr Skotfélagi Reykjavíkur náði mjög flottum árangri á sterku móti í München en IWK-mótið er talið vera sterkasta mót sem er haldið utan mótaraða ISSF (Alþjóða Skotíþróttasambandsins) og ESC.
Ásgeir tók þátt í tveimur mótum. Fyrra mótið var á föstudag og það síðara í gær. Í gær skaut Ásgeir sig inn í úrslitin með því að ná 583 stigum og endaði að lokum í 6. sæti sem er flottur árangur hjá honum.
Ásgeir náði í 577 stig í fyrra mótinu á föstudaginn sem skiluðu honum í 19. sætið.
Ásgeir Sigurgeirsson átti mjög gott ár í fyrra þar sem hann varð meðal annars fjórtánda sæti á Ólympíuleikunum í London. Hann var meðal tíu efstu í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna ársins á Íþróttamanni ársins.
