Fyrstu dómar um kvikmyndina 2 Guns í leikstjórn Baltasars Kormáks eru komnir í hús. Gagnrýnandi Variety er yfir sig hrifinn. Hann hrósar aðalleikurum myndarinnar, þeim Denzel Washington og Mark Wahlberg, og segir Baltasar kunna á hasarmyndaformið betur en flestir.
Þá hefur hann á orði að myndin sé að mestu laus við tölvubrellur og segir hana líklega til þess að hugga Universal-kvikmyndaverið eftir vonbrigðin sem R.I.P.D. var. Hann líkir myndinni, og reyndar síðustu Hollywood-mynd Baltasars, Contraband, við verk hasarleikstjórans Walter Hill og hrósar myndatökunni í hástert.
Gagnrýnina má lesa í heild sinni á vef Variety.
Gagnrýnandi Variety yfir sig hrifinn af hasarmynd Baltasars
