Bekkurinn kemur á markaðinn nú í vor en Steypustöðin framleiðir bekkinn. Hann var frumsýndur á HönnunarMars.
„Áhugi okkar beggja á steypu varð kveikjan að þessu samstarfi," segir Rúna.
„Okkur þóttu líka þau form sem þegar eru sýnileg úr steypu, full ferköntuð en í steypunni felast miklir möguleikar, hún getur fylgt hvaða formi sem er." Rúna segir þær einnig hafa viljað sýna fram á þá möguleika sem eru fyrir hendi á Íslandi, bæði í tæknivinnslu og framleiðslu og hverju samvinna hönnuða og framleiðslufyrirtækja getur skilað. „Ef hægt er að sýna fram á hvað er hægt að gera hér kveikir það vonandi bæði í hönnuðum og innlendum framleiðendum um samstarf. Samvinnan við steypustöðina gekk frábærlega vel."
Bekkurinn fékk nafnið Klettur og segir Rúna þær hafa sótt innblásturinn í náttúruna og einnig hafi þær viljað tengja áferðina á steypunni við náttúruna.

„Við gátum unnið módel af bekknum hjá FabLab en sjálft mótið var smíðað hjá Bátahöllinni á Hellissandi. Steypustöðin steypir í mótið og sér um framleiðslu á bekknum. Við hugsum hann bæði fyrir almenningsrými og í heimilisgarða en það er hægt að sitja á honum tvo vegu. Í framhaldinu er svo ætlunin að hanna fleiri vörur í kringum Klett; blómaker og minni sæti, stóla eða kolla og jafnvel borð," segir Rúna.
