Á sama tíma opnar hún alls tíu sýningar í Listagilinu á Akureyri, það er í öllum sýningarsölum Sjónlistamiðstöðvarinnar, í sal Myndlistarfélagsins, Populus Tremula, Mjólkurbúðinni.
Sýningarnar marka lokin á verkefninu Réttardagur, 50 sýninga röð sem staðið hefur yfir síðan júní 2008 og verið sett upp víða um land og utan landsteinanna. Útgangspunktur sýninganna er sauðkindin og sú menning sem skapast um og út frá sauðkindinni.
Þetta er risavaxið verkefni og telja verkin á sýningunum – skúlptúrar og lágmyndir – nú mörg hundruð.

„Nei, en það hvarflaði vissulega nokkrum sinnum að mér hvað ég hefði eiginlega verið að hugsa að ráðast í svona stórt verkefni,“ segir hún og hlær.
En hvað er næst á dagskrá?
„Ég ætla að leyfa mér að vera í lausu lofti í nokkra mánuði. Það er kærkomið að sjá öll verkin samankomin, þá áttar maður sig betur á hvað þetta er og hvort maður vilji halda áfram á sömu nótum. Verkefninu Réttardegi er lokið, ég hef fengið nægju mína af þessu þema, en á hugsanlega eftir að vinna áfram með svipuð efnistök.“
En hvað verður um öll verkin sem urðu til?
„Ég er ekki einu sinni farin að hugsa út í það. Það er seinni tíma vandamál.“