Kvikmyndin Málmhaus hefur fengið inngöngu á eina af virtustu og stærstu kvikmyndahátíðum Asíu, BIFF, eða Busan International Film Festival.
Leikstjórinn Ragnar Bragason verður viðstaddur hátíðina, sem er haldin í átjánda sinn í Suður-Kóreu 3. til 12. október. Á meðal annarra íslenskra mynda sem hafa verið sýndar á hátíðinni eru Sveitabrúðkaup, The Good Heart og Englar alheimsins.
BIFF-hátíðin leggur áherslu á að að kynna nýja leikstjóra til sögunnar, oftast frá Asíulöndunum. Málmhaus verður því ein af fáum myndum á hátíðinni sem hefur enga tengingu við Asíu. Hátíðin er einnig vinsæl á meðal ungs fólks enda leggja skipuleggjendur hennar áherslu á ungt hæfileikafólk.
Stærsti kvikmyndasölumarkaður Asíu fer fram á hátíðinni og því er mikil gleði innan herbúða Málmhauss yfir að hafa komist þangað inn. Kvikmyndin verður frumsýnd á Íslandi 11. október.
