Breski leikarinn Charlie Hunnam hætti fyrir stuttu við að taka að sér aðalhlutverk kvikmyndarinnar Fifty Shades of Grey. Mikið hefur verið fjallað um málið í erlendum fjölmiðlum og útskýrði Hunnam ákvörðun sína fyrir sjónvarpsstöðinni E!.
„Ég þarf að sinna persónulegum málum. Þegar ég hef lokið við tökur á sjónvarpsþáttunum [Sons of Anarchy] ætla ég til Englands að hitta fólkið mitt. Síðan mun ég taka að mér að leika í nýrri kvikmynd eftir Guillermo [del Toro]. Ég hyggst einbeita mér að þessu í bili,“ sagði leikarinn. Hann missti föður sinn í maí.
Líklegt þykir að Jamie Dornan, Billy Magnussen eða Luke Bracey taki við hlutverki Christians Grey í stað Hunnam. Leikstjóri myndarinnar, Sam Taylor-Johnson, hyggst hefja tökur á myndinni í nóvember og er áætlaður frumsýningardagur hennar 14. ágúst á næsta ári.
