Berglind útskrifaðist sem klæðskeri og kjólahönnuður árið 2001 og rak saumastofuna Kjóll og klæði áður en hún fluttist búferlum til Lúxemborgar. Hún hefur nú búið í landinu í fimm ár og starfar þar sem klæðskeri.
Aðspurð segist Berglind ekki hafa verið meðvituð um að Þórunn, sem er íslensk en uppalin í Lúxemborg, hafi ætlað að klæðast kjólnum í þættinum.
„Þórunn sagði mér eftir á að hún hefði klæðst kjólnum í þættinum og að hún hefði fengið mjög góð viðbrögð frá dómurunum,“ segir Berglind, en að hennar sögn horfðu um 11 milljónir Þjóðverja á sjónvarpsþáttinn sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni SAT1.
Berglind er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og þótti liðtæk í handbolta á sínum yngri árum. Hún lék meðal annars nokkra leiki með íslenska kvennalandsliðinu í handbolta.
„Ég spilaði mikið hér í den, fyrst með ÍBV og síðan með Val og Fram. En ég er löngu hætt í boltanum, ég hætti árið 1996,“ segir hún og hlær.
Spurð út í framtíðaráform sín segir Berglind þau óráðin enn. „Ég framleiði einfaldari hluti, líkt og klúta og toppa, á vinnustofu heima hjá mér. Svo tek ég að mér sérsaum þess á milli. Ætli ég sinni því ekki áfram þar til annað kemur í ljós,“ segir hún að lokum.