Schoombie van Rensburg, einn þeirra lögreglumanna sem voru fyrstir á vettvang, bar vitni og lýsti hann blóðslóð sem lá frá anddyri hússins og upp stiga, í gegnum borðstofu, að svefnherbergi Pistoriusar. Hann hefur áður sagst hafa borið lík Steenkamp niður stigann í von um að bjarga lífi hennar.
Réttarmeinafræðingurinn Johannes Vermuelen bar einnig vitni en hann fullyrðir að Pistorius hafi ekki verið búinn að setja undir sig gervifæturna þegar hann reyndi að opna baðherbergishurðina með krikketkylfu. Pistorius er fótalaus fyrir neðan hné en hann hefur áður sagst hafa sett undir sig gervifæturna þegar hann taldi sig heyra í innbrotsþjófi.
Barry Roux, verjandi Pistoriusar, þjarmaði að Vermuelen í réttarsalnum og spurði hann meðal annars hvort baðherbergishurðin hefði verið skoðuð sérstaklega á sínum tíma, meðal annars til að kanna hvort á henni væru fótspor, en því neitaði Vermuelen. Fótspor á hurðinni hefðu getað fært sönnur á það að Pistorius hefði reynt að sparka hurðinni upp og þar af leiðandi að hann hafi verið með gervifæturna áfasta.
Pistorius skaut Reevu í gegnum lokaða baðherbergishurð um miðja nótt en ber því við að hann hafi haldið að hún væri innbrotsþjófur. Hann hefur hinsvegar verið ákærður fyrir morð og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hanns sakfelldur.
