Stóru málin heimsóttu Stykkishólm á ferð sinni um Vesturland í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
Stykkishólmur hefur glímt við miklar skuldir en ferðaþjónustan hefur vaxið mikið og hefðbundnar atvinnugreinar standa vel. Heimir Már ræddi stóru málin í bænum við oddvita L-listans og H-listans.
Sjálfstæðismenn höfðu verið með meirihluta í 36 ár þar til í síðustu kosningum þegar L – listinn bauð fram og vann meirihlutann. Lárus Á. Hannesson oddviti L – listans, segir stóru málin á síðasta kjörtímabili hafa mikið varðað málefni aldraðra og sjúkrahúsið.
Hann segist vona að L – listinn fái að halda áfram því verkefni að sameina öldrunarþjónustu sem bærinn rekur í húsi st. franciskusspítala. Lárus segir fjölbreytni í atvinnulífinu prýðilega og það hafi verið öflugt á síðustu árum.
Hafdís Bjarnadóttir situr í fyrsta sæti H – listans, listi framfarasinnaðra Hólmara. Sturla Böðvarsson er bæjarstjóraefni listans. Hafdís segir að verja þurfi opinber störf á svæðinu, sem hafi horfið að undanförnu.
Hún segir ákveðna stöðnun hafa ríkt og fleira fólk þurfi í Stykkishólm.
