Matarsóun hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið og ljóst að við getum öll tekið okkur á í þeim efnum. Engar rannsóknir hafa enn verið gerðar á því hversu miklum mat Íslendingar sóa á ári hverju, en séum við á pari við önnur Evrópulönd hvað þetta varðar þá má gera ráð fyrir að landsmenn hendi um 30% af öllum mat frá því að hann er á framleiðsustigi og þangað til að hann endar í ískápnum hjá okkur.
Það þýðir að meðalfjölskylda eyðir um 300 þúsund krónum á ári í mat sem fer í ruslatunnuna.
„Það er svolítið síðan ég fór að velta þessu fyrir mér," segir Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi hjá Vesturporti og stofnandi samtakanna Vakandi.
„Mig vantaði áramótaheiti síðustu áramót og ákvað að reyna að stefna að því að hætta að sóa mat. Við eyðum svo miklum tíma í vinnunni til að safna okkur inn pening, og hluti hanns fer svo í mat sem endar beint í ruslatunnunni. Það finnst mér galið, ég er allavega til í að eyða peningunum mínum í annað.“
Rakel bendir á að þó að hið mikla framboð af mat í verslunum og veitingastöðum sé vissulega af hinu góða getum við stundum bara borðað það sem við eigum í skápunum.
„Matur er farinn að skipta okkur svo miklu máli. Við getum eldað rétti úr öllum heimshornum og alls staðar eru spennandi matreiðsluþættir og svo framvegis. Það er að sjálfsögðu í góðu lagi, en stundum getum við líka bara borðað úr skápunum okkar þó það sé kannski ekki efst á óskalistanum.“
Rakel hefur fengið mjög góð viðbörgð við því að vekja máls á matarsóun.
„Ég finn alveg fyrir vitundarvakningu í þjóðfélaginu. Bæði fyrirtæki og einstaklingar hafa haft samband við mig og viljað fá góð ráð um hvað má gera betur," segir hún.
Það er ótalmargt sem við neytendur getum gert betur, og eitt af því er að vera meðvitaðari þegar við verlsum í matinn, eins og Rakel bendir okkur á í meðfylgjandi myndskeiði.