„Hugmyndin að þessum sjóði kom upp í tengslum við 40 ára afmæli heimilisins á síðasta ári og stofnun þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar,“ segir Tryggvi Friðjónsson, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins í Hátúni 12, og á þar við Styrktarsjóð Sjálfsbjargarheimilisins sem formlega varð til í gær. Auk heimilisins komu fyrirtækin Eirberg, Fastus, Stoð, Öryggismiðstöðin og Össur að stofnun hans.
„Okkur finnst sérstakt að ná þessum fyrirtækjum öllum að sama borði. Þau eiga það sameiginlegt að hafa verið framarlega í þjónustu við hreyfihamlaða um árabil og hafa nú heitið því að styðja Sjálfsbjargarheimilið með árlegum fjárframlögum, einni milljón króna á ári.
Markmiðið er að auðvelda heimilinu að veita íbúum og starfsmönnum þess stuðning, með úrbótum í aðbúnaði, kaupum á tækjabúnaði eða styðja við starfsemina vegna ákveðinna verkefna sem ekki teljast til hefðbundins reksturs.“ segir Tryggvi.
Stofna sjóð til stuðnings fötluðum
