Sæmundur Gunnarsson hefur opnað listsýningu í húsnæði Ófeigs gullsmiðs á Skólavörðustíg 5.
Sýningin kallast Ljós í hrauni, enda segir listamaðurinn nýlega atburði við Gálgahraun hafa kveikt með honum ljós.
Þetta er sjöunda einkasýning Sæmundar sem kveðst hafa krassað og teiknað frá því að hann man eftir sér.
Hann hefur sótt fjölda námskeiða, meðal annars í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Myndlistarskóla Reykjavíkur, hjá Þuríði Sigurðardóttur og ýmis námskeið á vegum Myndlistarfélags Reykjanesbæjar.
