„Við flytjum eigin tónsmíðar. Þær eru dálítið tregafullar en tiltölulega einfaldar. Grípandi laglínur en vafðar spuna.
Við erum allir búnir að vera í djassnámi og spinnum mikið kringum tónsmíðarnar.“
Þetta segir Kristinn Smári Kristinsson gítarleikari sem er í tríóinu Minua, ásamt þeim Luca Aaron, sem einnig leikur á gítar, og Fabian Willmann bassaklarinettuleikara.
Þeir félagar eru nú á tónleikaferð um landið og koma fram víða.
Kristinn er Reykvíkingur. Hann byrjaði að spila á selló fimm ára en skipti yfir í gítarinn um tólf ára aldurinn. Nú er hann nýútskrifaður úr tónlistarháskólanum í Basel í Sviss og hyggst færa sig yfir til Bern í enn frekara nám.
Kristinn kveðst hafa kynnst þeim Fabian og Luca í Basel og hlakka til að sýna þeim landið sitt.
Hægt er að fylgjast með ferðum Minua á Facebook-síðu tríósins sem og heimasíðunni www.minua.net.
Tónleikar Minua eru á eftirtöldum stöðum:
14. Sjóræningjahúsið Patreksfirði kl. 21.00
15. Menningarhúsið Berg Dalvík
17. Akureyrarkirkja kl. 17.00
18. Sláturhúsið Egilsstöðum
kl. 21.00 (Ormsteiti 2014)
19. Tónlistarmiðstöð Austurlands kl. 20.00
20. Pakkhúsið Höfn kl. 21.00
26. KEX Hostel kl. 20.30
