Auk sýningarinnar gerði Pure Evil meira en 30 verk sem hann skildi eftir víðs vegar um borgina. Hægt var að finna verk eftir hann á spýtum, vínylplötu, bílhurð og fleira. Menn gátu þá skilað verkunum upp í galleriíð og fengið þau árituð áður en hann fór af landi en að sögn gallerísins var fjölmörgum verkum skilað. Þá gerði Pure Evil nokkur veggverk, m.a. á Rauðarárstíg og Grettisgötu. Á Rauðarárstígnum er verk fyrir framan Innrammarann. „Þetta er bara snilld, þetta fær góða athygli,“ segir Georg Þór Ágústsson hjá Innrammaranum, spurður um hvað honum finnist um að hafa verk eftir frægan götulistamann fyrir framan búðina. Hægt er að sjá mörg þessara verka á Instagram-síðu listamannsins, Pureevilgallery.

Hið samnefnda gallerí Pure Evil í austurhluta Lundúna er áhrifamikið gallerí í nútímagötulist. Galleríið sýnir verk eftir unga og upprennandi listamenn frá Bretlandi og víðar. Galleríið hefur einnig haldið utan um sýningar erlendis.
Á sölusíðu listaverkasalans Charles Saatchi má finna fjölmörg verk til sölu eftir Pure Evil en þar eru verkin á verðbilinu 250-3.500 pund eða um sjö hundruð þúsund íslenskar krónur. Þar má einnig lesa stefnuyfirlýsingu gallerísins sem er hápólitísk. „Við erum andsnúin því að líta á listamenn sem neysluvörur“, „Prinsipp koma á undan gróða“, og „Engir sýningarstjórar leyfðir – þeir verða skotnir á staðnum“, segir meðal annars. Þá segir galleríið að það borgi listamönnum sínum 75% af sölugróðanum „af því að við getum það“.