Bjarni Sigurbjörnsson listmálari opnar sýninguna Andstæður í neðri sal Anarkíu, listasalar í Hamraborg í Kópavogi milli 15 og 18 á laugardaginn og sýning Kristins Más Pálmasonar, Gagnaugað, verður opnuð í efri sal á sama tíma.
Bjarni sýnir tvö stór málverk og fundna hluti. Eins og titillinn ber með sér tekst listamaðurinn þar á við hugtakið andstæður og ólík birtingarform þess.
Kristinn Már er með málverk, unnin með akríl, akrílpennum og málningarsprautu á striga og pappír.
„Í vinnuferlinu glími ég við verkin líkt og stærðfræðiþraut í tívolí,“ segir hann og kveðst jafnframt byggja á dulhyggju og táknfræði.
Bæði Bjarni og Kristinn Már eiga að baki fjölda einkasýninga auk þátttöku í samsýningum og samvinnuverkefnum hér heima og erlendis.
Sýningarnar standa til 22. nóvember.
