Bryndís Rán Magnúsdóttir festi nýverið kaup á hárgreiðslustofunni Rauðhettu & úlfinum á Skólavörðustíg 8 ásamt Margréti Eddu Einarsdóttur. Hún féllst á að gefa hugmynd að einfaldri jólagreiðslu sem allir ættu að geta leikið eftir. Hún segir greiðslur núorðið frekar frjálslegar og að þær eigi frekar að vera óreglulegar en stífar. Hanakamburinn á meðfylgjandi myndum er í þeim anda.
Hvað varðar hártískuna að öðru leyti segir hún mjög sítt hár á undanhaldi og að margar konur láti klippa hárið rétt neðan við axlir. Þegar kemur að litum segir hún tvenns konar mjög ólíka strauma ríkjandi. Annars vegar eru það náttúrulegir litir og fíngerðar strípur og hins vegar kaldir hvítir tónar með bleiku og jafnvel sægrænu ívafi.




