Húsið er kallað Jólahús barnanna á þessu tímabili enda skreytt með þarfir yngsta aldurshópsins í huga að sögn eiganda þess og yfirskreytingarmeistara, Hallbjörns Sæmundssonar. Húsið stendur í gamla bænum í Keflavík og var byggt árið 1926. Það er rautt á lit með hvítu þaki og nokkuð jólalegt í útliti og því sérstaklega heppilegt undir skrautlegar jólaskreytingar.
„Ég byrjaði að skreyta húsið fyrir um sextán árum. Upphaflega var þetta hóflegt en skrautið varð meira með hverju árinu sem leið. Ég hef smíðað eitthvað sjálfur og keypt annað en ég legg minni áherslu á jólaljósin en þeim mun meiri á ýmsar fígúrur enda skreyti ég með þarfir barna í huga. Þau hafa miklu meira gaman af ýmsum fígúrum en fallegum jólaljósum enda koma þau mikið hingað, ekki síst í hópum frá leikskólum bæjarins.“

Margar rútur frá höfuðborgarsvæðinu stoppa hér við en margir heimsækja Reykjanesbæ á þessum árstíma enda mörg falleg jólahús hér. Bærinn breytist í hálfgerða paradís á þessum árstíma. Það er líka gaman að heyra um fólk sem heimsækir húsið árlega. Ég ræddi til dæmis við ömmu í fyrra sem mætir hingað á hverju ári með barnabörnin sín úr Reykjavík.“

„Þetta er mjög tímafrekt verkefni sem krefst vandvirkni. Það þýðir ekkert að henda þessu upp hingað og þangað heldur þarf að vanda vel til verks. Ég set skrautið upp einn og vil enga hjálp við það. Sjálfur er ég orðinn löglegt gamalmenni og orðin svolítið fullorðinn fyrir þetta príl en ef ég get þetta ekki einn þá er kominn tími til að hætta þessu.“