Við hittum 12 manna hlaupahóp sem ætlar að hlaupa hringveginn til að vekja athygli á hárri tíðni sjálfsvíga ungra karla á íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Geðhjálp og Rauða Krossinn undir yfirskriftinni Útme‘ða.
Með slagorðinu Útme‘ða eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að stuðla að því að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Sjálfsvíg hafa verið algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á allra síðustu árum.
Framlag hlaupahópsins til átaksins verður að hlaupa hringinn í kringum landið með viðkomu í Vestmannaeyjum á aðeins fimm sólarhringum. Hver hlaupari þarf því að klára 30-40 kílómetra á dag.
Framlag hlaupahópsins verður að safna styrkjum og hafa þau skipt hringveginum upp í 10 km búta sem fyrirtæki geta keypt á 30-50 þúsund og tekið þannig þátt í hlaupinu. Allt söfnunarfé Útme‘ða mun renna til forvarnarherferðar og gerð forvarnarmyndbands. Stefnt er að herferðinni verði ýtt úr vör á alþjóðlegum forvarnardegi gegn sjálfsvígum 10. september næstkomandi.
Hlaupið hefst 30. júní og lýkur með grillveislu í Reykjavík þann 5. júlí.
Fréttir af hlaupahópnum og allar nánari upplýsingar um verkefnið á Facebook síðu Útme‘ða
