Lífið

Mæta með allt nýtt á heimilið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hugi Halldórsson, framleiðandi hjá Stórveldinu.
Hugi Halldórsson, framleiðandi hjá Stórveldinu. vísir/hag
Framleiðslufyrirtækið Stórveldið stendur fyrir sjónvarpsþætti þar sem öll fjölskyldan er þátttakandi.

Þátturinn gengur út á að vinna sér inn nýja innanstokksmuni, allt frá nýrri brauðrist upp í nýtt sófasett eða frí í sólina fyrir alla fjölskylduna.

„Við erum að leita að hressum og skemmtilegum fjölskyldum til að taka þátt í þessu með okkur," segir Hugi Halldórsson, framleiðandi hjá Stórveldinu.

„Það sem gerir þetta spennandi og öðruvísi er að þátturinn gerist heima í stofu hjá fólki. Ef td. sjónvarpið og/eða ísskápurinn er kominn til ára sinna mætum við með allt nýtt og það eina sem fjölskyldan þarf að gera er að svara í sameiningu nokkrum spurningum. Fyrir hvert rétt svar fær fjölskyldan að skipta út gömlum hlut í staðinn fyrir nýjan. Foreldrarnir vita kannski ekki hvert millinafn Justin Bieber er, en 12 ára fjölskyldumeðlimur veit það kannski. Ef hinsvegar enginn veit svarið má fjölskyldan nýta sér einn af valmöguleikum á borð við að spyrja nágranna sína.“

Spurningarnar henta fyrir alla aldurshópa og verður þetta að teljast kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur til að endurnýja húskosti heimilis síns.

Áhugasamar fjölskyldur eru beðnar að senda tölvupóst á storveldid@storveldid.is með upplýsingum um fjölda fjölskyldumeðlima og aldur þeirra, ásamt öðru sem fjölskyldan vill koma á framfæri.

„Við hvetjum sérstaklega fjölskyldur sem hafa áhuga á spilum og öðrum skemmtilegum samkvæmisleikjum til að senda okkur línu,“ segir Hugi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.