Tónlist

John Carpenter kemur fram á ATP

Stefán Árni Pálsson skrifar
John Carpenter.
John Carpenter.
Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi tilkynnir með stolti John Carpenter í fyrsta sinn á tónleikum á Ásbrú 2016. Ótrúlegt en satt en þetta verður í fyrsta sinn í sögunni þar sem John Carpenter flytur tónlist sína opinberlega og í eigin persónu.

Bandaríska tónskáldið og leikstjórinn John Carpenter kemur til með að leika mörg af sínum þekktustu verkum ásamt lögum af nýju plötunni sinni Lost Themes auk nýrra tónverka.

Þetta er í fyrsta sinn sem hinn goðsagnakenndi tónlistarmaður og leikstjóri John Carpenter kemur fram á tónleikum til að flytja tónlist sína.

„ATP er að springa úr stolti og gleði yfir því að þessi einstaki viðburður eigi sér stað á Ásbrú í byrjun júlí á næsta ári. Þetta kemur til með að verða söguleg stund sem vekja mun áhuga meðal tónlistar- og kvikmyndafólks um heim allan enda viðburður sem enginn má missa af,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum ATP.

John Carpenter er brautryðjandi þegar kemur að tónlist og kvikmyndum. Hann hefur samið tónlist við eigin kvikmyndir en um leið gert nokkur eftirminnilegustu kvikmyndaskor sem samin hafa verið fyrir spennu- og hryllingsmyndir. Nefna má myndir eins og Dark Star (1974), Assault on Precinct 13 (1976), Halloween (1978), The Fog (1980), Escape from New York (1981), Christine (1983), Starman (1984), Big Trouble in Little China (1986), Prince of Darkness (1987) og They Live (1988) sem dæmi um það.

Tilkynnt verður um fleiri listamenn síðar en ATP á Íslandi er líkt og áður haldið á Ásbrú í Keflavík. Boðið er upp á tónlist á tveimur sviðum innandyra auk þess sem sýndar verða sérvaldar kvikmyndir, keppt í PopQuiz, dansað við dj-tóna í diskósal og margt fleira. Meðal listamanna sem komið hafa fram á ATP á Íslandi síðustu þrjú ár má nefna Nick Cave and the Bad Seeds, Portishead, Iggy Pop, Neil Young & Crazy Horse og Public Enemy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.