Verkföll á sjötta þúsund ríkisstarfsmanna hafa lamað starfsemi á annað hundrað stofana í dag. Eldri borgarar hafa lent í erfiðleikum með að fá lyf sín endurnýjuð og skólar verið lokaðir vegna verkfallsaðgerðanna.
Verkföll SFR og sjúkraliða hófust á fimmtudaginn í síðustu viku. Um allsherjarverkfall er að ræða á Landspítalanum, hjá Tollstjóranum, hjá Sýslumannsembættum um allt land og hjá Ríkisskattstjóra. Skemmri verkföll eru síðan hjá starfsmönnum ríflega hundrað og fimmtíu stofnana til viðbótar og hófst önnur lota þeirra á miðnætti og stendur til miðnættis annað kvöld.
Verkfallsaðgerðirnar hafa víða veruleg áhrif. Meðal annars á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins. Þar var sumum til dæmis vísað frá í dag sem þurftu að fá skrifað upp á lyf sín.
„Ég þarf að taka alltaf meðul dags daglega og nú fer mig að vanta inn í og þetta er ekkert létt fyrir mann,“ segir Sigríður Eyjólfsdóttir sem mætti á heilsugæslustöð sína í dag til að fá skrifað upp á lyf. Henni var vísað frá og bent á að fara á Læknavaktina á Smáratorgi.
„Gömlu fólki er gert afskaplega erfitt fyrir að þurfa að fara að þvælast upp á Smáratorg. Sko ég bý nú í Grafarvoginum og þetta er ansi langt hjá manni að fara,“ segir Sigríður.
Víða kom fólk að lokuðum dyrum í dag. Þeir sem sjá um móttöku á stofnunum eru í verkfalli og þá var heldur ekki svarað í síma hjá mörgum stofnunum. Meirihluti þeirra sem starfa í þjónustumiðstöð Tryggingarstofnunar eru félagar í SFR sem eru í verkfalli.
„Það eru margir sem að bíða eftir að komast á greiðslur og það tefst vegna þess að læknaritararnir uppi á réttindasviði eru líka í verkfalli. Þannig að okkar langi biðtími hann mun lengjast enn frekar,“ segir Sólveig Hjaltadóttir framkvæmdastjóri samskiptasviðs Tryggingarstofnunar.
Kennsla féll niður að mestu leyti í Háskóla Íslands í dag og í nokkrum framhaldsskólum vegna verkfallsaðgerðanna. Meðal annars Menntaskólanum við Reykjavík. Þar sjá SFR félagar um ræstingar en þeir eru í verkfalli.
„Staðan er bara skelfileg. Því miður þá þurftum við að loka í dag og það var fyrst og fremst vegna ástands á salernum sem að var í rauninni ekki boðlegt að mínu mati,“ segir Yngvi Pétursson, rektor MR.
