Mikil röskun á heilbrigðisþjónustu
Þjónusta á heilsugæslum verður verulega skert, en þar verður ekki svarað í símann á meðan verkfallinu stendur og síðdegisvakt á öllum heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins lokuð. Þá mun heimahjúkrun aldraðra og sjúkra að mestu leggjast niður.
Mikil röskun verður á starfsemi Landspítalans. Um sextán hundruð sjúkraliðar á spítalanum leggja niður störf og á sjöunda hundrað á öðrum heilbrigðisstofnunum.Um sex hundruð manns fá undanþágu til að sinna bráðatilfellum á Landspítalanum.
Kennsla fellur niður
Þá fellur öll kennsla við Háskóla Íslands niður, nema kennsla í Háskólabíói. Það er vegna verkfalls umsjónarmanna húseigna háskólans sem eru félagar í SFR. Á vefsíðu HÍ segir að verkfallið komi til með að hafa veruleg áhrif á starfsemi skólans.
Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi embættis tollstjóra, en umtalsverð röskun verður bæði á innheimtu- og tollsviði embættisins. Afgreiðsla og símsvörun skiptiborðs og þjónustuvera í Tollhúsinu Tryggvagötu verður jafnframt lokuð. Þá leggst stór hluti starfsemi sýslumannsembætta um land allt niður.
Leiksýningar falla niður og ÁTVR lokar
Starfsemi ríkisskattstjóra leggst að mestu niður, sem og hjá Vinnumálastofnun, Sjúkratryggingum og Íbúðalánasjóði. Vínbúðir ÁTVR verða lokaðar á meðan verkfallinu stendur. Símsvörun hjá Vegagerðinni og lögreglunni leggst niður og allar sýningar í Þjóðleikhúsinu falla niður sömuleiðis.
Listi þessi er ekki tæmandi, en líkt og sést verður röskun á ríkisstofnunum mikil. Félagsmenn fara í fimm tveggja daga skæruverkföll, það síðasta 12. yil 13. október. Verkföll á Landspítala, hjá Ríkisskattstjóra, Tollstjóra og sýslumannembættum eru hins vegar ótímabundin.
Lillý Valgerður Pétursdóttir ræddi við Ingólf Þórisson, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítalans, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær um þær afleiðingar sem verkfallið hefur á spítalann.