Lokað fyrir samskiptaforritið í WhatsApp í Brasilíu
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Facebook keypti samskiptaforritið WhatsApp á seinasta ári fyrir 19 milljarða dollara.vísir/getty
Lokað hefur verið fyrir samskiptaforritið WhatsApp í Brasilíu næstu 48 tímana en dómari í borginni Sao Paulo kvað upp úrskurð þess efnis í gær. Um 100 milljónir nota forritið í landinu en lokunin tók gildi á miðnætti að staðartíma, eða klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma.
Mark Zuckerberg, stofnandi og stærsti eigandi Facebook, ritar færslu um lokunina á Facebook-síðu sína í morgun en Facebook keypti WhatsApp í fyrra á 19 milljarða dollara, eða um 2.300 milljarða íslenskra króna.
Í færslu sinni segir Zuckerberg að Facebook vinni nú hörðum höndum að fá úrskurði dómarans um lokun WhatsApp hnekkt en bendir Brasilíumönnum á að enn sé hægt að nota Facebook Messenger.
„Þetta er sorgardagur fyrir Brasilíu. Þar til nú hafa yfirvöld í Brasilíu verið talsmenn þess að hafa internetið opið. Þá hafa Brasilíumenn alltaf verið ötulir í því að tjá skoðanir sínar á netinu,“ segir Zuckerberg.
Í umfjöllun The Verge um málið kemur fram að brasilísk símafyrirtæki hafi löngum reynt að stöðva gríðarlegan vöxt WhatsApp í landinu þar sem hægt er að hringja ókeypis í gegnum forritið. Þetta telja símafyrirtækin ólöglegt og hafa líkt WhatsApp við sjóræningjastarfsemi. Fyrirtækin hafa hins vegar ekki haft erindi sem erfiði við að koma böndum á WhatsApp þar til með lokuninni nú.