Lífið

Líkjast þeim sem þau leika

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kvikmyndir í ævisagnastíl sem segja sögur af raunverulegum atburðum og einstaklingum hafa löngum notið vinsælda, en nokkur ábyrgð þykir fylgja því að taka að sér slík hlutverk.

Á síðasta ári komu út nokkrar slíkar myndir og fleiri eru væntanlegar á þessu ári.

Eddie Redmayne hlaut Golde Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Stephen Hawking.Mynd/Getty
The Theory of Everything

Eddie Redmayne túlkar breska eðlisfræðinginn Stephen Hawking í kvikmyndinni The Theory of Everything og þykir hafa tekist afar vel til, en Hawking sjálfur er sagður hæstánægður með frammistöðu hans. 

Redmayne hlaut Golden Globe-verðlaunin sem besti leikari í dramaflokki kvikmynda og er einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna. 

Myndin hlaut tvenn Golden Globe-verðlaun en Íslendingurinn Jóhann Jóhannsson hlaut verðlaun fyrir tónlistina í myndinni og er að auki tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestu frumsömdu tónlistina, en The Theory of Everything er alls tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna.

Sjónvarpsmyndin fjallar um líf stórsöngkonunnar Whitney Houston sem leikin er af Yaya Dacosta.Mynd/Getty
Whitney

Sjónvarpsmyndin Whitney, um líf stórsöngkonunnar Whitney Houston sem lést árið 2012, var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni Lifetime fyrir skömmu.

Leikkonan Yaya Dacosta leikur söngkonuna og Angela Bassett leikstýrir, en Whitney er hennar fyrsta leikstjórnarverkefni.

Bassett þekkti Houston og vann með henni í bíómyndinni Waiting to Exhale sem kom út árið 1995.

Fjölskylda söngkonunnar er mjög ósátt við myndina sem gerð var án hennar samþykkis og birti harðorða yfirlýsingu á opinberri heimasíðu söngkonunnar í kjölfar sýningarinnar.

Timothy Spall hlaut gyllta pálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir hlutverk sitt sem J.M.W. Turner.Mynd/Getty
Mr. Turner

Breski leikarinn Timothy Spall varði tveimur árum í undirbúningsvinnu fyrir hlutverk sitt sem landslagsmálarinn J.M.W. Turner í kvikmyndinni Mr. Turner sem kom út á seinasta ári.

Spall þykir hafa tekist vel upp og fékk hann verðlaun sem besti leikarinn á Cannes-kvikmyndahátíðinni í maí síðastliðnum.

Hann hlaut þó ekki tilnefningu til Óskarsverðlauna en Mr. Turner er tilnefnd í fjórum flokkum, meðal annars fyrir kvikmyndatöku og búningahönnun.

Þeir Alan Turing og Benedict Cumberbatch eru fjarskyldir frændur og aldrei að vita nema skyldleikinn hafi nýst leikaranum í túlkun sinni.Mynd/Getty
The Imitation Game

Breski leikarinn Benedict Cumberbatch leikur tæknifrömuðinn Alan Turing í The Imitation Game og var tilnefndur til Golden Globe-verðlauna sem besti leikarinn í dramamyndaflokki en verðlaunin féllu í skaut samlanda hans, Eddie Redmayne.

Cumberbatch þykir framúrskarandi í myndinni og er tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki en The Imitation Game er alls tilnefnd til átta Óskarsverðlauna.

Á daginn hefur komið að Cumberbatch og Turing eru skyldir í sautjánda ættlið.

Queen Latifah fannst hún ekki nægilega lífsreynd þegar henni var fyrst boðið að leika Bessie Smith.Mynd/Getty
Bessie

Söng- og leikkonunni Queen Latifah var fyrst boðið að leika blús- og djasssöngkonuna Bessie Smith fyrir tuttugu og tveimur árum en Latifah hafnaði boðinu þar sem henni fannst hún ekki nægilega lífsreynd.

Nú tveimur áratugum seinna er Latifah lífsreyndari og tilbúin að takast á við áskorunina og lék söngkonuna í sjónvarpsmyndinni Bessie.

Dee Rees leikstýrir myndinni sem er framleidd af HBO og verður frumsýnd á stöðinni á árinu.

Hljólreiðakappinn Lance Armstrong er leikinn af Ben Foster í myndinni Icon.Mynd/Getty
Icon

Hjólreiðakappinn Lance Armstrong átti undir högg að sækja eftir að upp komst um lyfjamisnotkun hans.

Ben Foster leikur Armstrong í myndinni Icon, þar sem sagt er frá honum og írska íþróttablaðamanninum sem var sannfærður um að Armstrong neytti ólöglegra efna og þeim mætti þakka sigurrunu hans í Tour de France.

Stephen Frears leikstýrir myndinni og verður hún frumsýnd í Bandaríkjunum í ágúst.

Nicole Kidman leikur Gertrude Bell í myndinni Queen of the desert.Mynd/Getty
Queen of the Desert

Werner Herzog leikstýrir myndinni Queen of the Desert sem fjallar um ævi og störf breska fornleifafræðingsins og njósnarans Gertrude Bell, en hún var einnig fyrsta konan sem lauk námi frá Oxford-háskóla.

Í fyrstu var Naomi Watts skipuð í hlutverk Bell en ástralska leikkonan Nicole Kidman mun leika Bell í myndinni.

Queen of the Desert verður frumsýnd í febrúar en auk Kidman fara James Franco og Robert Pattison með hlutverk í myndinni og er hennar beðið með talsverðri eftirvæntingu.

Martin Luther King Jr. er leikinn af David Oyelowo í myndinni.Mynd/Getty
Selma

David Oyelowo leikur aktívistann og frelsishetjuna Martin Luther King Jr. í kvikmyndinni Selma sem kom út undir lok seinasta árs. 

Myndin, sem meðal annars er framleidd af Brad Pitt, var tilnefnd sem besta dramamyndin á Golden Globe-hátíðinni en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Boyhood. 

Titillag myndarinnar, Glory, sem samið er og flutt af John Legend og Common hlaut Golden Globe-verðlaun og eru þeir einnig tilnefndir til Óskarsverðlaunanna. 

Mörgum þykir hafa verið litið fram hjá myndinni í Óskarstilnefningum en hún hlaut einungis tvær tilnefningar, fyrir besta lagið og bestu myndina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.