„Þetta eru líklega með stærstu tónleikum sem við höfum tekið, þetta eru allt tíu til fimmtán þúsund manna tónleikastaðir,“ segir Ásgeir spurður út í ferðalagið. Hann er mjög vinsæll í Ástralíu og fór tvisvar sinnum þangað á síðasta ári. „Stærsti aðdáendahópurinn okkar er líklega í Ástralíu. Við höfum fengið góða spilun á stórri útvarpsstöð þar, Triple J, þannig að fólk fór að tengja við okkur.“
Spurður út í kynni sín af hljómsveitinni alt-J segist Ásgeir alltaf hafa verið mikill aðdáandi sveitarinnar. „Ég hef hlustað á alt-J síðan hún var stofnuð og hef alltaf fílað hana. Ég er mikill aðdáandi og hef verið frá þeirra fyrstu plötu. Við hittum meðlimi sveitarinnar fyrir ekki svo löngu í Ástralíu, við tókum nokkur festivöl með þeim. Þeir sögðust fíla tónlistina okkar, sem var mjög ánægjulegt,“ útskýrir Ásgeir.
Síðasta ár var mjög annasamt hjá Ásgeiri í tónleikahaldi og sér hann einnig fram á annasamt ár 2015. „Þetta ár verður samt annasamt að öðru leyti. Við tökum þennan Bandaríkjatúr með Hozier, komum svo heim í tvo mánuði og förum svo með alt-J.“

Hann segist reyna að lifa heilsusamlegu lífi þó svo að mikið partístand geti einkennt tónleikaferðir. „Á síðasta túr sleppti ég alveg að drekka og það var frábært. Þá er maður meira „on it“, sefur betur og hreyfir sig frekar. Annars er alltaf nóg af áfengi í boði þar sem maður kemur á þessum ferðalögum.“
Ásgeir ætlar að einbeita sér að lagasmíðum þegar hann er ekki á tónleikaferðalagi og sér fyrir sér að hefja upptökur á nýrri plötu í haust en frumraun hans, Dýrð í dauðaþögn, kom út árið 2012. „Ég er byrjaður að semja og er kominn með góða aðstöðu. Ég hef ekki haft tíma til að semja en þetta er að koma inn núna. Ég hef verið að græja aðstöðu undanfarnar vikur og eftir Bandaríkjatúrinn ætla ég að byrja að vinna á fullu,“ segir hann.
Hann er kominn með lagahugmyndir í kollinn og ætlar sér að gera mikið á næstu mánuðum í lagasmíðum. Hann segir jafnframt að nýja efnið verði að öllum líkindum samið á íslensku og tekið upp þannig . „Nýja platan gæti verið bæði á íslensku og ensku en þetta kemur í ljós.“