„Námið í FAMU er svolítið öðruvísi því hér er enginn að taka brúðkaupsmyndir eða framleiða auglýsingar. Kennararnir eru allir listamenn svo dagskráin er nokkuð lífleg. Það er mikil áhersla lögð á listasögu og heimspeki, sem er ólíkt hefðbundnu ljósmyndanámi. Lokaprófin eru líka skelfileg, eftir hverja önn mætum við tólf manna dómnefnd og þurfum að verja allt sem við höfum gert á skólaárinu. Nú í lok námsins fór ég að einbeita mér að hugmyndafræðinni á bak við ljósmyndun og hvernig ég get nýtt tæknina til þess að koma skoðunum niður á blað eða í mynd.
Í inntökuprófunum fyrir meistaranámið, lofaði ég dómnefndinni að gera allt öfugt við það sem ég er vön og það hefur borgað sig hingað til. Ég tók þátt í sex sýningum á síðasta ári, í Tékklandi, Slóvakíu og Slóveníu. Síðustu verkin mín hafa fengið svo frábærar móttökur að ég eiginlega skammast mín.“

María var valin ein af bestu útskriftarnemum úr þrettán ljósmyndaskólum í Evrópu af Frönsku samtökunum, J-E-E-P, sem reyna að styrkja unga listamenn og koma þeim á framfæri. Hún er einmitt að sýna í París um helgina og verður aftur í Frakklandi í mars, þar sem hún tekur þátt í vinnustofu Magnum-ljósmyndarans Antoine d'Agata.
„Ég veit eiginlega ekkert í hvað stefnir og er hálf feimin við þessa athygli en fjölskyldan er voða stolt og það er æðisleg tilfinning. Í síðustu viku hélt ég einkasýningu í Prag undir titlinum Guð blessi Ísland, þar sem ég gerði pínu grín að ástandinu á Íslandi eftir bankahrunið, en ég kenni eiginlega heimþránni um það verk. Fram undan er mikil vinna og ferðalög en fyrst og fremst ætla ég klára þetta nám. Mig langar alveg svakalega að komast heim til að halda sýningu, svo ég geti nú boðið ömmum mínum og öfum en hvort verður af því kemur bara í ljós.“