Stefán Pálsson sagnfræðingur verður með hádegisfyrirlestur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á 6. hæð að Tryggvagötu 15 í dag, innan um myndir Braga Þórs Jósefssonar ljósmyndara á sýningunni Varnarliðið.
Vera hersins á Miðnesheiði var viðkvæmasta deiluefni íslenskra stjórnmála um áratuga skeið og á ýmsu gekk í samskiptum herstöðvaandstæðinga og setuliðsins.
Stefán, sem er fyrrverandi formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, mun eflaust gefa gestum nýtt sjónarhorn á myndir Braga Þórs sem tók þær eftir að herinn hafði yfirgefið herstöðina árið 2006. Sýningunni lýkur 10. maí.
Stefán byrjar erindi sitt klukkan 12.10 í dag og aðgangur er ókeypis.

