„Ég er að vinna niðri í bæ þannig að ég tek myndavélina stundum með mér og rölti aðeins um þegar ég hef tíma. Fólk er almennt mjög opið fyrir því að láta taka myndir af sér. Einu skiptin sem ég fæ neitun er þegar fólk er á hraðferð. Fólk er opnara fyrir þessu en ég þorði nokkurn tímann að gera mér vonir um.“
Birta byrjaði með bloggið í mars en gerði það ekki opinbert fyrr en í apríl þegar hún var búin að safna nóg af efni inn á síðuna.

Bloggið hefur fengið góðar undirtektir og er Facebook-síðan hennar strax komin með tæplega 2.000 fylgjendur.
Til þess að byrja með hafði Birta hugsað sér að vera með sams konar færslur og í blogginu fræga Humans of New York, en hún telur Ísland vera of lítið land til þess að fólk myndi þora að opna sig um persónulega hluti. Í nánustu framtíð ætlar hún að láta það duga að birta myndirnar með nöfnum einstaklingsins.

„Ég ætla mér að halda blogginu með þessu sniði áfram en ég er samt alltaf með hugann við bloggið og er opin fyrir breytingum. Ég gæti þess vegna verið búin að skipta um skoðun á morgun.“
Á blogginu eru birtar myndir af alls konar manneskjum og öllum týpum. „Ég fíla þegar fólk leggur eitthvað einstakt í útlitið sitt og gerir það sem því dettur í hug. Og fylgir engum reglum. Annars mynda ég líka fólk sem klæðist því sem er í tísku hverju sinni. Það er mikilvægt að hafa það á síðunni og gæti verið gaman að eiga það eftir nokkur ár og sjá hvað hefur breyst. Fyrir nokkrum árum voru allir í dúnúlpum en í dag ganga flestir um í síðum kápum.“
Birta kláraði ljósmyndun í Tækniskólanum og myndirnar hennar bera þess vitni. Þær eru vel teknar og fallega unnar. „Ég passa mig að vinna þær ekki of mikið. Ég er að reyna að fanga hversdagsleikanum þannig að ég breyti þannig séð engu. Það er bara standard-vinnsla á þeim.“
Myndirnar hennar hafa birst í nýja tímaritinu Ske ásamt því að bloggarinn Hildur Ragnars hefur birt þær á bloggsíðunni sinni á Trendnet. „Ég var að tala við Hildi þegar hugmyndin var að fæðast þannig að auðvitað fær hún að njóta góðs af því.


