Valdís Thor ljósmyndari er á meðal þeirra sem sýna á Ísafirði og hún segir að sýningin sé hluti af einu af markmiðum félagsins, sem er að kynna samtímaljósmyndun fyrir landi og þjóð.
„Af einhverjum ástæðum virðist samtímaljósmyndun ekki eiga upp á pallborðið hjá Íslendingum, ekki síst þegar miðað er við hversu langt við erum komin í mörgum listgreinum. Við viljum því efla kynningu á samtímaljósmyndun og ekki aðeins í Reykjavík heldur einnig á landsbyggðinni. Við erum undirfélag í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og við sem erum að vinna innan þessa félags erum einkum að vinna að ljósmyndun á listrænum forsendum.“

Næstkomandi laugardagur er síðasti sýningardagur en Valdís segir að þeim hafi verið afskaplega vel tekið á Ísafirði. „Við vorum svo heppin að fá styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, 3 x Technology og Landflutningum og erum ákaflega þakklát fyrir það. Vissulega langar okkur til þess að koma sýningunni suður, en hún er viðamikil og rými í Reykjavík eru af skornum skammti. Ef einhver veit um rými þá væri það vel þegið og biðjum við viðkomandi endilega um að hafa samband við félagið. Það yrði afar ánægjulegt ef það gæti gengið eftir.“