
Að sögn Fjölnis eru fleiri skólar að íhuga að sniðganga aðalkeppnina í ár. „Það er hins vegar rétt að taka það fram að okkur langar ekki í neina samkeppni við SÍF [Samband íslenskra framhaldsskólanema] eða þeirra keppni. Okkar markmið er að endurvekja stemninguna sem fylgdi Söngkeppninni áður og okkur finnst hafa dalað að undanförnu.“
Fjölnir segir að skólarnir telji ekki rétt að aðeins fulltrúar tólf skóla fái að láta ljós sitt skína á aðalkeppninni. Hagur keppenda eigi að vera í fyrirrúmi og þeir eigi allir að fá tækifæri til að stíga á svið. Að auki felist í nýja fyrirkomulaginu kostnaður fyrir skóla.
„Allir skólar þurfa að greiða þátttökugjald og þeir sem komast í sjónvarpið fá eingöngu tuttugu miða. Það fylgir því vesen að fara með svo lítinn hóp á milli landshluta og getur verið kostnaðarsamt fyrir litla skóla.“
Söngkeppni framhaldsskólana fór síðast fram á Akureyri árið 2014 og þá í Hofi. Árin á undan hafði hún farið fram í Höllinni.