„Ég er mjög spenntur, þetta er búið að vera sérstaklega skemmtilegt ferli og gaman að vera kominn upp á svið eftir útskrift. Þetta er fyrsta hlutverkið mitt í atvinnuleikhúsi,“ segir Albert fullur tilhlökkunar.

„Þetta er fyrsta leikverk Bjartmars sem sett er upp í atvinnuleikhúsi og það er frábært að vinna með honum. Hann á að baki langan feril sem leikstjóri, leikari og dramatúrg. Ég er virkilega spenntur fyrir að takast á við hlutverkið. Það er frábært tækifæri fyrir mig að fá að taka þátt í þessari sýningu,“ segir Albert.
Gripahúsið er svört kómedía og samfélagsrýni sem fjallar um þá hringrás staurblindrar bjartsýni og hruns sem við sjáum birtast í þjóðfélaginu trekk í trekk. Verkið fjallar um einstæðu móðurina Védísi og þrjú uppkomin börn hennar sem hírast í fátækt á leigubýli lengst uppi á heiði. Þrátt fyrir að allt gangi á afturfótunum þá eru þau samt full af bjartsýni um betri tíma og í sífelldri leit að skyndilausnum til þess að finna hamingjuna.
„Ég leik Sírni, mjög meðvirkan ungan mann sem býr með fjölskyldunni sinni út á landi, hann er á einhverfurófi og hefur alls ekki fengið það uppeldi sem hann hefði þurft á að halda. Hann er í því að hjálpa móður sinni við að halda öllum góðum í því ástandi sem fjölskyldan býr við,“ segir Albert aðspurður um hans hlutverk í sýningunni.
Ásamt Alberti fara þau Bryndís Petra Bragadóttir, Sigríður Björk Baldursdóttir og Sveinn Óskar Ásbjörnsson með aðalhlutverk í sýningunni.
„Þetta er góður og skemmtilegur hópur og mjög gaman að vinna með þeim,“ segir Albert jákvæður í bragði.