Ákvörðun um að kýla á að halda sérstaka keppni fyrir þá skóla var tekin í byrjun marsmánaðar og því mátti hafa hraðar hendur við skipulagningu.
„Þetta hefur gengið alveg fáránlega vel,“ segir Helgi Steinar Halldórsson sem aðstoðað hefur nemendafélögin við skipulagningu keppninnar. Hann starfar fyrir Exton tækjaleigu og hefur verið viðloðinn viðburði á vegum nemendafélaga menntaskóla á Norður- og Austurlandi í þó nokkurn tíma. „Það hafa allir verið til í að vera með sem eru að koma að þessu. Þetta small allt mjög hratt.“
Sjá einnig: Sex skólar draga sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna og skoða það að halda sína eigin keppni

„Það eru 509 miðar í boði,“ segir Helgi Steinar og bætir því við að hægt sé að kaupa miða í versluninni Imperial Glerártorgi en einnig verði hægt að kaupa miða við hurð.
Skólarnir sem um ræðir eru Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Fjölbreytaskóli Norðurlands Vestra, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum, Verkmenntaskóli Austurlands og Framhaldsskólinn á Húsavík. Hver og einn mætir til leiks með tvö atriði fyrir utan Menntaskólann á Tröllaskaga sem kemur með eitt.
„Við vildum hafa fleiri lög í keppninni, til þess að lengja hana og gera meira úr þessu. Þannig að fyrsta sætið úr öllum undankeppnum í skólunum mætir og svo annað eða þriðja sætið eftir því hvor flytjandinn kemst.“
Standa með ákvörðun sinni
Forsvarsmenn nemendafélaga í fyrrgreindum skólum eru ánægðir með ákvörðun sína. Formaður Þórdunu, nemendafélags Verkmenntaskólans á Akureyri, segist standa fastur á sínu gagnvart SÍF, Sambandi íslenskra framhaldsskóla, sem hefur staðið að skipulagningu Söngkeppninnar undanfarin ár. „Þau sættu sig alveg við þetta að lokum. Þau skilja fullkomlega ákvörðun okkar núna en voru alveg rosalega ósátt fyrst,“ útskýrir Stefán Jón Pétursson formaður Þórdunu. Hann telur að gera þurfi miklar breytingar á skipulagningu Söngkeppni framhaldsskólanna.
„Með núverandi fyrirkomulagi er þetta dauðadæmt dæmi. Bara miðað við kostnaðinn og hversu margir horfa á keppnina. Þetta bara rugl.“
Stefán Jón viðurkennir að hann hefði viljað fá meiri tíma heldur en einn og hálfan mánuð til þess að skipuleggja Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi. „En það hefur gengið rosalega vel miðað við fyrirvarann.“