Anton Sveinn McKee komst ekki í undanúrslit í 50 metra bringusundi en undanrásir fóru fram í London í morgun þar sem EM í 50 metra laug er haldið.
Anton Sveinn kom annar í mark í sínum riðli á 28,59 sekúndum á eftir Búlgaranum Luchezar Shumkov sem synti á 28,21 sekúndu. Hvorugur komst í undanúrslitin.
Til að komast í undanúrslit hefði Anton Sveinn þurft að synda undir 28 sekúndum en Írinn Alexander Murphy var 16. og síðasti maður inn í undanúrslitin á 28 sekúndum sléttum.
Anton varð í heildina 28. af 49 keppendum sem syntu í undanrásum í morgun.
