Tónlist

Eigum enn eftir að sanna okkur mikið

Guðrún Ansnes skrifar
Of Monsters and Men ber tvær plötur undir belti eins og Ragnar orðaði það. Þau eru þegar farin að horfa að þriðju.
Of Monsters and Men ber tvær plötur undir belti eins og Ragnar orðaði það. Þau eru þegar farin að horfa að þriðju. Mynd/Meredith Truax
Það er eitthvað sem gerist þegar maður spilar heima. Ég held að það sé einhvers konar blanda af auknu stressi og miklu stolti sem tekur yfir líkama manns. Það er erfitt að lýsa því. Við erum svo vön að spila fyrir framan haf af ókunnugu fólki þannig að það er góð tilbreyting að spila heima fyrir fólk sem maður þekkir og þykir vænt um,“ segir Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari Of Monsters and Men.

Sveitin er komin hingað til lands og stígur á svið á Secret Solstice hátíðinni sem hófst í gær. Bandið kemur fram á sunnudagskvöld. Of Monsters and Men hefur ekki spilað á Íslandi síðan á síðasta ári þegar sveitin blés til útgáfutónleika í Hörpu vegna plötunnar Beneath the skin.

Akkúrat ár er síðan hún kom út og fékk gríðarlega góðar viðtökur, en strax fyrstu vikuna seldist platan í sextíu og eitt þúsund eintökum. Þá fór platan beint í þriðja sæti Billboard listans í Bandaríkjunum og náði fyrsta sæti á iTunes. Þá var platan jafnframt sú mest selda á Íslandi sé árið tekið saman.

Spurður hvernig um sé að litast, horfir Ragnar aftur um ár, og á þá gríðarlegu velgegni sem raun ber vitni um, svarar hann hógvær að við blasi „aðallega góðar stundir með góðum vinum“.

Hann segir sömuleiðis að þó svo sveitin geti fagnað góðu gengi séu þau engan veginn komin í einhvern stjörnumeðferðarpakka. „Ég held að við eigum enn eftir að sanna okkur mikið til að komast á sama stall og Björk til dæmis. Við erum ekki komin á þann stað að fá stjörnumeðferðina hvar sem við förum, þó það eigi vissulega til að gerast við og við.“





Sveitin spilaði síðast á Íslandi í ágúst í fyrra, þá á útgáfutónleikunum í Hörpu.Vísir/Anton Brink
Vissulega eru allir mennskir

Of Monsters and Men hefur sumsé verið á tónleikaferðalagi síðan á síðasta ári. Ferðin hófst í Suður-Ameríku og hefur síðan teygt sig til Mexíkó, Ástralíu, Singapúr, Filippseyja, Bandaríkjanna og nú síðast í Kanada áður en heim var haldið. Eðli málsins samkvæmt hefur því býsna margt á daga hljómsveitarmeðlima drifið, svo sem heimsókn til spjallþáttadrottningarinnar Ellenar í október í fyrra og í lok maí birtust þau í hinum nafntoguðu þáttum, Game of Thrones. Þá hefur OMAM túrað með enska indírokkbandinu Florence and the Machine undanfarið.

Hvernig skyldi mórallinn vera í svona umfangsmiklum ferðalögum? „Mórallinn er yfirleitt mjög góður þegar við erum á túr. Við gerum í því að hafa í kringum okkur fólk sem er jákvætt og bjartsýnt og hugsar í lausnum en ekki í vandamálum. Þú þarft að vera mjög þolinmóður og umburðarlyndur til þess að túra og við erum heppin með hóp hvað það varðar. En vissulega eru allir mennskir og auðvitað getur nándin reynst erfið. Það fá allir hins vegar tíma fyrir sig þegar við förum á hótel og það er gott að nýta hann til þess að endurræsa og undirbúa sig fyrir komandi rútulíf,“ útskýrir Ragnar einlægur.

Ný plata í kortunum

„Eftir því sem maður túrar meira því meira fer maður að hlakka til að byrja á næstu plötu. Við erum mörg hver byrjuð að semja en undirbúningurinn byrjar ekki af fullri alvöru fyrr en eftir að við hættum að túra þessa plötu,“ segir Ragnar spurður út í frekari plötusmíð. 

„Ég er rosalegur stoltur og þakklátur fyrir móttökurnar sem Beneath The Skin hefur fengið og það hefur verið mikið ævintýri að túra hringinn í kringum heiminn með tvær plötur undir beltinu. Fram undan bíða okkar enn þá nokkur stutt ferðalög en svo er planið held ég bara að slappa svolítið af, ná í rassgatið á íslenska sumrinu og hefjast síðan handa við þriðju plötuna.“

Líkt og áður segir er bandið komið til landsins og mun stíga á Valhallarsviðið í Laugardalnum á sunnudagskvöld. Sléttri viku síðar verður hljómsveitin í Englandi að skemmta gestum Glastonbury-hátíðarinnar. Gert er ráð fyrir að um fimmtán þúsund manns sjái sveitina í Laugardalnum á meðan seldir miðar á Glastonbury eru hundrað þrjátíu og fimm þúsund. Munurinn er talsverður, krefst stærri hátíðin öðruvísi undirbúnings?

„Nei. Við tæklum flest festivala-gigg á mjög svipaðan hátt. Það skiptir eiginlega ekki máli hvort maður er að fara að spila fyrir fimm þúsund manns eða þrjátíu þúsund. Það eina sem hægt er að gera hvort sem er, er að vera í augnablikinu og njóta þess sem maður er að gera. Það sem þú gefur frá þér færðu yfirleitt margfalt til baka á svona giggum,“ útskýrir hann.


Tengdar fréttir

Stærsta Solstice hátíðin til þessa

Nú þegar sólin snertir vart sjóndeildarhringinn og sumarsólstöður í nánd, verður Secret Solstice tónlistarhátíðin haldin í þriðja sinn og er þetta stærsta hatíðin til þessa en skipuleggjendur hafa leyfi fyrir 15 þúsund manns í Laugardalnum og fljótlega stefnir í að miðar verði uppseldir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.