Saga MEC er í raun endursögn af upprunalega Mirror's Edge frá 2008, en samt ekki. Gömul andlit birtast á skjám sem og gömul nöfn. Faith er nýsloppin úr fangelsi. Hún skuldar fullt af peningum og tekur að sér ýmis verkefni. Í einu slíku rekst hún á stærðarinnar samsæri sem tengist henni persónulega.
Mirror's Edge Catalyst virðist mjög efnilegur við fyrstu sýn. Það skemmtilegast við MEC er að hlaupa um Glass, finna nýjar leiðir um borgina og að koma óvinum Faith á óvart úr lofti.
Þá er mjög skemmtilegt að hlaupa um borgina og finna takmarkanir Faith og hvernig nýta má hæfileika hennar best. Sjónarhorn leiksins er fast í fyrstu persónu, fyrir utan í bardögum þar sem af og til koma upp stutt myndbönd, og gerir það mikið fyrir MEC.
Bardaga kerfi leiksins er bæði gott og slæmt. Að berjast á hlaupum er frábær skemmtun þar sem Faith stekkur af veggjum og sparkar í vonda karla eða hoppar af húsþökum og sparkar í vonda karla. Það er hægt að finna nýjar leiðir til að ganga frá óvinum Faith, og finna leiðir til að binda saman spörk og högg.
Leikurinn þvingar spilara þó nokkrum sinnum til að kljást við óvini í lokuðum rýmum og þar nýtur Faith sín vægast sagt ekki.
Þrátt fyrir að upprunalegi Mirror's Edge sé orðinn átta ára gamall, er MEC enn nokkuð nýmóðins aðrir sambærilegir leikir stinga ekki upp kollinum í fljótu bragði. Hlaup og klifur leiksins eru skemmtileg og virka vel og sama má segja um bardagakerfi leiksins, að mestu.
Gallar MEC eru þó klisjukennd saga, dræm persónusköpun, endurtekning og líflaus borg. Mirror's Edge Catalyst er efnilegur en nær aldrei þeim hæðum sem hann gæti náð.