Myndbandið má sjá hér fyrir neðan en í því fylgjumst við með Snorra í vinnunni. Hvort sem það er í bíl á leiðinni til Egilsstaða, að klæða sig upp á hótelherberginu áður en hann rýkur út á næstu tónleika eða bara í stund á milli stríða að fá sér einn svellkaldan... ís í Perlunni.
„Hann kom með okkur þegar við vorum að spila á Drangsnesi. Þetta er smá ferðavídjó,“ segir Snorri. „Ég man að ég samdi þetta lag þegar við vorum á Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðinni. Valgeir Guðjónsson var að spila um kvöldið og ég og Saga sátum og vorum að hlusta á plöturnar sem hann gaf út í kringum árið 1977. Það er Sturla með Spilverkinu, Á bleikum náttkjólum sem þeir gerðu svo með Megasi og svo barnaplötuna Hrekkjusvín. Sú heilaga þrenning.“
Ástaróður til frelsisins og ástarinnar
Snorri hefur greinilega miklar mætur á þessum plötum því í kjölfarið öðlaðist hann einhvers konar lífssýn sem hann svo tileinkaði sér og samdi texta lagsins Vittu til um.„Ég fékk þá hugmynd að mér ber skylda til þess að gera bara snilld. Af því að ég kemst upp með það. Það er svo margir sem hafa ekki eins frjálsar hendur og ég. Ég á ekki neitt, ekki einu sinni bíl, og er bara að gera það sem ég elska. Einhvern veginn hefur mér tekist að komast upp með það í tíu ár. Þess vegna finnst mér það vera skylda mín að gera bara eitthvað skemmtilegt og gefa af mér í leiðinni.“
Snorri segir lagið því vera einskonar ástaróð til frelsisins og ástarinnar sjálfrar en hann og leikkonan Saga Garðarsdóttir hafa verið par um skeið. Hún sést til dæmis á afar sætu augnabliki í myndbandinu.
Hljómsveitin Snorri Helgason kemur næst fram á Innipúkanum um Verslunarmannahelgina.