Um 83 þúsund störf í fjármálageiranum í London gætu horfið ef Bretland missir ákveðin evrutengd réttindi í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu EY sem Financial Times greinir frá.
Samkvæmt skýrslunni mun 31 þúsund sölustarf og 18 þúsund bakvinnslu- og endurskoðendastörf í bankageiranum tapast. Um er að ræða ástandið ef útgöngusamningar fara á versta mögulega veg. Sérfræðingar hjá EY telja að störfin myndu tapast yfir sjö ára tímabil.
Staða London sem miðstöðvar fjármálageirans í Evrópu hefur verið í uppnámi frá því að úrslit kosninganna um Evrópusambandið lágu fyrir í sumar. Enn er óvíst hvernig útgöngusamningar munu nást. Fjöldi fjármálastofnana hefur sagst ætla að færa störf frá London ef allt fer á versta veg. Sunday Times greindi nú síðast frá því að bandaríski bankinn Citi íhugi að flytja níu hundruð störf frá London til Dublin.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
